bókmenntir

Vandinn að lifa

Persónur Fórnarleika eru allar í vondri stöðu í lífsins tafli. Ógæfa fjölskyldu viðhelst mann fram af manni, vegna skapgerðarbresta, bælingar eða misskilinna fórna. Álfrún Gunnlaugsdóttir, einn af okkar fremstu rithöfundum, sendir frá sér magnaða fjölskyldusögu.

Rithöfundurinn og friðarsinninn Magni Ríkharðs- og Regínuson hyggst rekja harmsögu ættar sinnar og skrifa það sem hann kallar hina „óskálduðu skáldsögu“ með því að nota upptökur á snældum sem móðir hans lét eftir sig. Það reynist þó flóknara en hann hélt:

„Þó að persónur í lífinu og persónur í skáldskap eigi það sammerkt að rekast hver á aðra og ef til vill kynnast, miðast sú tilviljun í skáldskapnum að settu marki. Skáldsaga stefnir ævinlega í átt að tilteknum endalokum. Samverkanin milli persóna hefur sinn tilgang, og persónur opna ekki munninn án þess að það hafi merkingu eða afleiðingu fyrir framvindu sögunnar. Þessu er auðvitað öðruvísi háttað í lífinu. Ég hafði ímyndað mér að ég gæti fyllt upp í eyðurnar milli hins raunverulega lífs og hins skapaða lífs, en reyndist erfitt, því að persóna í skáldskap verður að hafa til að bera vissa samkvæmni í hegðun og hugsun, til að tekið sé fyllsta mark á henni (198-9)…“

Mæðgur takast á

fornarleikar_72Allt sitt líf hefur Magni tiplað á tánum í kringum drykkfellda móður sína. Hún sneri ólétt og próflaus heim frá Spáni á dögum Francos og átti erfitt með að fóta sig í tilverunni. Móðir hennar, Arndís, er fálát og aðfinnslusöm í viðleitni sinni til að vernda dóttur sína og sjálfa sig eftir að Guðgeir, eiginmaður hennar, framdi sjálfsmorð. Samskipti mæðgnanna eru erfið og þvinguð, vonbrigðin svíða og gamall sársauki er aldrei gerður upp.

Fórnarleikar er breið, epísk ættarsaga sem nær yfir fimm kynslóðir. Sagan er margradda, sjónarhornið hjá persónunum á víxl  og sögusamúðinni jafnt útdeilt en Magni hefur alla þræði í hendi sér. Atburðir og minningar úr fortíðinni lifna við og raðast í heilsteypta mynd af venjulegu fólki sem glímir við vandann að lifa. Saga Guðgeirs og Arndísar er fyrirferðarmest og áhugaverðust, hún gerist á stríðsárunum þegar erlendir straumar flæða að íslensku samfélagi sem einkennist af þröngsýni og kyrrstöðu. Það hillir undir önnur viðhorf og ný tækifæri sem kveikja von í brjósti ungu hjónanna:

„Fátæktin hafði verið reglan, ekki undantekningin, og það kom við auman blett í brjóstinu. Fátæktin hafði lokað svo mörgum dyrum og skilið svo fáar eftir opnar. En það hafði verið unnið að því  sigggrónum höndum að gera hana burtræka svo framtíðin blasti við með alla sína möguleika og splunkunýja siðmenningu. Eyjarembingurinn færi sína leið í fylgd með þröngsýninni og sjálfumgleðinni“  (59).

En björtu vonirnar lognast út af þegar Guðgeir er þvingaður til að taka við fyrirtæki föður síns og Arndís er löngum þrúguð af ábyrgð, skyldum og réttlætiskennd. Ekki er annað hægt en að finna til með þessum harmrænu persónum sem fara í gegnum lífið á hnefanum og færa fórnir sem engum er þægð í.

Hverfulleikinn

Víða eru áhugaverðar pælingar um skáldskap í verkinu, um hið forna og þögla samkomlag höfundar og lesanda (200), um mörk veruleika og ímyndunar og um hverfulleikann; hvað er eftir þegar allir eru farnir, myndirnar fölnaðar og raddirnar þagnaðar?

„Skrýtið annars … rödd á spólu tengist ekki líkama, líkt og hún hafi öðlast eigið líf. Röddin varð eftir þegar líkaminn fór, og svipaður draugagangur á sér stað með ljósmyndir. Á þeim er andartakið fryst að eilífu þó að allir séu farnir, og verða þar þangað til þetta sama andartak, svipbrigðin, brosið, þurrkast endanlega út. Hið sama gildir um hljóð sem tekið er upp, að lokum verður aðeins þögnin eftir“ (11).

Djúp viska

Fórnarleikar er bók þrungin djúpri visku, yfir henni svífur einhvers konar æðruleysi gagnvart örlögunum og boðskapur sögunnar á erindi við okkur öll sem lesendur og manneskjur. Það er mikilvægt hverri manneskju að missa ekki sjónar af sögu sinni og minningum. Og það er engum hollt að brjótast áfram í þrjóskulegri einsemd: „Maður var aldrei búinn undir neitt, það var meinið, varð að fóta sig einn, skilja flestallt upp á eigin spýtur eins og það væri í fyrsta sinn í sögu mannkyns sem það gerðist“ (88). Erfið samskipti, þögn og tengslaleysi geta haft afleiðingar út yfir gröf og dauða.

Magni virðist ætla að skora hverfulleikann á hólm og rjúfa vítahringinn því saga hans „ber í sér frjókorn annars konar lífs“ en á sama tíma þiggur hann fórn konu sinnar. Það er því ekki mikil von til að kynslóðirnar muni nokkurn tíma læra af reynslu og mistökum annarra.

Forlagið, 2016

216 bls.

Rödd að handan

Er líf eftir þetta líf? Tórir sálin þótt líkaminn tortímist? Er guð til? Ráða fyrirfram ákveðin örlög lífi okkar og dauða eða er það slembilukkan?

Steingrímur, aðalpersónan í Ævintýri um dauðann eftir Unni Birnu Karlsdóttur, rankar við sér handan heims og þarf að sætta sig við að hafa farist af slysförum í blóma lífsins. Hann horfir á konu sína og fjölskyldu syrgja og sjálfur er hann hnugginn og bugaður, fastur milli tilverusviða og „horfinn heiminum. Ekki lengur hluti af mannlífinu“ (12). Hann hefur tekið því sem sjálfsögðum hlut að vera sprelllifandi og ekki órað fyrir að endalokin gætu komið svona snögglega. Hann sér eftir ýmsu og ætlaði að gera svo margt þegar um hægðist, eins og við öll.

 Þorpið

bj-ubk1Steingrímur ólst upp í sjávarþorpi úti á landi í stórri fjölskyldu. Systur  hans og mágkona eru gæðakonur og burðarstólpar í plássinu og bróðirinn Jói er risi með hjarta úr gulli, athafnamaður með allar klær úti. Foreldrarnir eru dæmigerðir fulltrúar sinnar kynslóðar, heiðarleg og vinnusöm hjón sem hafa byggt upp allt sitt með eigin höndum og búið börnum sínum framtíð í öryggi og trausti. Ein persóna sker sig úr hópnum, vinkonan Elenóra sem átt hefur hug og hjörtu bræðranna beggja frá bernsku. Hún er gjörólík þeim, lesbísk listakona sem flúði þröngsýni þorpsins og hefur aldrei snúið aftur. Allt eru þetta sannfærandi og vel smíðaðar persónur sem takast á við sársaukann sem fylgir því að vera til og reyna að gera það besta úr lífinu. Og þegar á reynir stendur fólk saman þrátt fyrir ágreining og gamlar misgjörðir og verndar þá sem minnst mega sín.

Dauðinn er tabú

„Sorgin er eins og olía, þykk og svört“ segir Lilja (83), ekkja Steingríms. Sorgin er líka vandræðaleg, það er erfitt að tala um hana og tekur óratíma að losna við hana; hvenær er mál að harka af sér og halda áfram að lifa? Daglegar athafnir verða Lilju ofviða og hún á enga orku aflögu handa ungum syni þeirra. Hún fer ekki úr náttfötunum, hefur enga matarlyst; svefnvana og stendur varla undir sjálfri sér. Sjálfur syrgir Steingrímur líf sitt og líkama, hann átti allt og hefur misst allt.

Dauði og sorg tilheyra þeim fjölmörgu tabúum í samfélaginu sem þögnin umlykur: „Þetta er litur þagnarinnar sem umlukti svo margt þegar ég var ung. Grá og þykk þögn um það sem skiptir máli, um það að vera manneskja, um tilfinningar, um það sem er erfitt, um sorgina, ástina, eineltið, drykkjuna, um lífið, draumana, dauðann. Manstu, það mátti aldrei tala um svoleiðis. Allt var þaggað niður. Maður gat næstum gleymt að maður hefði tilfinningar þegar maður var að alast upp“ (38) segir Elenóra.

Erfitt sjónarhorn

Margar bækur hafa verið skrifaðar um líf eftir dauðann, jafnvel með frásögnum af upplifun fólks af eigin andláti, ljósinu handan ganganna og langþráðri friðsæld. Í þessari bók er sjónarhornið óvenjulegt þar sem sögumaðurinn talar að handan. Það er býsna erfitt viðureignar og frekar sjaldgæft í skáldskap, Gyrðir Elíasson hefur beitt því listilega, t.d. íSvefnhjólinu. Margir muna eftir fyrstu tveimur seríunum af Aðþrengdum eiginkonum og skáldsögunni Svo fögur bein, þar sem sögumenn eru dánir. Lesandi verður að vera tilbúinn til að gangast inn á forsendur um framhaldslíf til að samþykkja þessa annars heims tilveru þar sem framliðnir svífa um í eins konar óljósri vídd óendanleika og æðruleysis. Í Ævintýri um dauðann birtast verur frá handanheimum sem hafa það hlutverk að leiða hina framliðnu inn í hliðarveruleika sem er hugsanlega biðsalur fyrir  næsta tilverustig. Þar reynir verulega á þrek og trú lesandans og vilja til að gefa sig skáldskapnum á vald.

Áhugaverðar pælingar eru í gangi í sögunni, um sæluríki, tilgang lífsins og alheimsvitundina og ótal spurningar vakna. Hvað sem fólki finnst um þessa hugmyndafræði er þetta vel gert og fallega.  Ævintýri um dauðann er í senn ástar-, fjölskyldu- og samfélagssaga sem snýst um tilvist mannsins þessa heims og annars, hún einkennist af mildi og mannúð, er vel skrifuð og boðskapurinn fallegur. Að lestri loknum, þarftu ekki lengur að óttast dauðann.

Bjartur, 2016

191 bls.

Birt í Kvennablaðinu, 19. sept. 2016

Skáldskapur

Stundum verð ég afar glaður af skáldskap. En hann er ekkert nema skríngi sem skoppa saman í hugmyndir, sögur, einfaldan stór-furðulegan skáldskap. Og hann blífur. Hann er það eina sem mér finnst nokkru máli skipta.

Steinar Sigurjónsson, 1967

„Ég tel mig nú eiginlega ekki vera rithöfund“

Innan um og saman við er ég að grúska í bókum Oddnýjar Guðmundsdóttur (d. 1985), rithöfundar frá Hóli á Langanesi. Þar er svo sannarlega eldmóður á ferð; sósíalískar og tilvistarlegar hugmyndir um samfélag og stöðu kenna og djúp meðlíðan með þeim sem minna mega sín. Fyrsta smásaga hennar, Eldhúsið og gestastofan, birtist í tímaritinu Iðunni, 1933, og segir frá samskiptum snobbaðrar húsfrúar og fátækrar vinnustúlku.

Vilborg Davíðsdóttir tók viðtal við Oddnýju sem birt var í kvennablaðinu Melkorku 1958. Oddný var hlédræg og hógvær í spjallinu: „Ég tel mig nú eiginlega ekki vera rithöfund. Ég er stundum að setja saman sögur í tómstundum mínum. Mér þykir það gaman. En ekki tel ég, að mér beri neinn gáfumannastyrkur frá ríkinu fyrir þá iðju. Nei, ég tel mig ekki með rithöfundum.“ Svo bætti hún við að útgefendur hefðu nú ekki mikið álit á henni.

Sáralítið var um skáldsögur hennar fjallað á sínum tíma, eins og raun var með margar bækur kvenna á þessum tíma. Skáldverk kvenna þóttu vera minniháttar afþreyingarefni og kerlingabækur, sem einkenndust af torfkofaraunsæi, lúinni epík og fortíðarhyggju. Engar myndir hef ég fundið á netinu af Oddnýju en hef verið að safna þeim og digitala. Fann á þessa fallegu mynd af henni sem birtist með viðtalinu.

screen-shot-2016-09-18-at-11-46-34

 

 

 

Lesefni í sumarfríinu

 

Aukaverkanir

29565510._UY2421_SS2421_

Njáll er miðaldra útbrunninn heimilislæknir, langþreyttur á fótsveppum, kæfisvefni og margvíslegri fíkn sjúklinga sinna. Hann er orðinn lífsleiður og einrænn, börnin vaxin frá honum og eiginkonan búin að fá alveg nóg. Ýmsir atburðir verða til þess að hann þarf að endurskoða líf sitt. Glæný og skemmtilega kaldhæðin bók eftir Ólaf Hauk Símonarson.

 

Dalalíf

imagesFjórða útgáfa af þessari sívinsælu sögu um ást í meinum og margslungin örlög í íslenskri sveit á 19. öld. Guðrún þótti aldrei nógu fín, menntuð eða merkileg til að vera talin meðal mestu höfunda þjóðarinnar þótt verk hennar væru gríðarlega vinsæl og lesin upp til agna. Það er áhugavert að sjá hvernig ný kynslóð lesenda tekur verkum Guðrúnar. Eru þau sígild? Á sveitalífið í Hrútadal með lókaldrama og kaffiþambi upp á pallborðið hjá unga fólkinu nú á dögum?

 

Glerhjálmurinn

UnknownHeimsfræg skáldsaga frá 1963 eftir bandarísku skáldkonuna Sylviu Plath, í þýðingu Fríðu Bjarkar Ingvarsdóttur (2003). Áhrifamikil bók um þar sem sagt sagt er frá brenglaðri sjálfsmynd og andlegu niðurbroti. Sylvia Plath varð eins konar tákngervingur fyrir kvenfrelsisbaráttu á sjöunda áratugnum, eftir glæsilegt upphaf á ferlinum sat hún uppi með börn og bleyjuþvott meðan eiginmaðurinn varð lárviðarskáld. Skyldulesning allra femínista með sómatilfinningu.

 

Konan í blokkinni

Unknown-1Hörkuspennandi saga, glóðvolg úr prentsmiðjunni, eftir Jónínu Leósdóttur. Sagan gerist í Reykjavík samtímans um jólaleytið þegar allir eru í stresskasti en Edda gamla er hálftýnd í öllum látunum. Hún er lífeyriseigandi (nýyrði í stað orðsins ellilífeyrisþegi), eldspræk með allt á hreinu og ljóst að fleiri glæpamál bíða hennar. Konur knýja atburðarásina, þær hugsa þokkalega vitrænt og láta til skarar skríða. Hommatengdasonurinn er samt skemmtilegasta týpan.

 

Níunda sporið

Unknown-2Glæný skáldsaga eftir Ingva Þór Kormáksson sem hlaut Gaddakylfuna 2009 fyrir glæpasöguna Hliðarspor. Sögumaður hlustar á sögu Egils, fornvinar síns, um dóp, brennivín og mannlega eymd. Atburðir sem gerðust í barnæsku hafa ófyrirsjáanleg áhrif og nú kemur að skuldadögum. Mjög trúverðugar lýsingar á djammi og alls konar rugli, hressandi lesning fyrir verslunarmannahelgina.

 

Regnskógabeltið raunamædda

Unknown-3Kom fyrst út 1955 og árið 2011 á íslensku í frábærri þýðingu Péturs Gunnarssonar. Bókin olli úlfaþyt meðal mannfræðinga og heimspekinga um heim allan en Leví-Strauss lýsir hér m.a. vettvangsrannsóknum á ættbálkum frumskóga Brasilíu sínum á síðustu öld. Höfundurinn lést 2009, rúmlega aldar gamall og hafði þá dregið sig í hlé frá skarkala heimsins fyrir allnokkru. Þetta er ferðasaga í bland við sjálfsævisögu og heimspekipælingar. Fjallað er um vestræna og suðræna menningu, nýlendustefnu og þjóðarmorð en eftir að Evrópubúar ruddust inn í Suður-Ameríku lágu hundruð þúsunda frumbyggja í valnum. Íslenskir afkomendur nýlenduþræla ættu ornað sér við tragískt hitabelti og frumstætt skógarlíf og læra smá um sögu heimsins í leiðinni.

Spámennirnir í Botnleysufirði

Unknown-4Mögnuð saga um líf í nýlendu Dana á Grænlandi á átjándu öld. Sagan hlaut bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 2013. Þýðingin er eftir Jón Hall Stefánsson og ekkert áhlaupaverk. Höfundurinn, Kim Leine, bjó sjálfur á austurströnd Grænlands og þekkir aðstæður vel. Margir Danir eru sárreiðir út í hann og telja hann fara með tómt fleipur um misnotkun og arðrán í aldaraðir í hinni dönsku nýlendu. Konur voru í sérstaklega vondri stöðu og réðu litlu um örlög sín. Ef manni finnst sumarið ekki nógu hlýtt eða sólríkt er gott að grípa í þessa sögu, sem manni verður beinlínis hrollkalt af að lesa – ekki bara út af veðurlýsingunum. Endist allt sumarið.

Vinkonuserían

framurskarandivinkonaStefnum við ekki allar á að ná a.m.k. einu góðu kvöldi, jafnvel bústaðahelgi, með bestu vinkonunni í sumarfríinu? Vinkonuserían svokallaða hefur heillað milljónir lesenda um heim allan en þar er lýst stöðu kvenna í íhaldssömu samfélagi í Napólí um miðja síðustu öld. Brynja Cortes Andrésdóttir þýðir lipurlega úr frummáli og aldrei er of oft minnt á hve íslenskir lesendur eiga þrautseigju og þolgæði þýðenda mikið að launa. Elena Ferrante er fræg fyrir að vilja ekki vera fræg, birtir undir dulnefni og fer huldu höfði.

 

Öddubækurnar

Unknown-5Jenna Jensdóttir lést í mars á þessu ári en hún ásamt manni sínum skrifaði Öddubækurnar sem komu allar sjö út í einum pakka í fyrra. Adda naut gríðarlegra vinsælda um 1970 og spennandi að sjá hvernig hún hefur elst. Hún var fátæk og munaðarlaus en það varð henni til bjargar að siðavönd og réttrúuð hjón tóku hana í fóstur. Adda fetar hefðbunda þroskabraut þess tíma, lýkur stúdentsprófi og trúlofast læknanema en þar endar sagan. Það er alveg furðulega stutt síðan að líf kvenna endaði einmitt þarna.

Tignarlegt sálarstríð

Franz Kafka 1883-1924         Mynd af commons.wikimedia.org

„Hvað finnst ykkur um þá fullyrðingu að Kafka hafi verið einsýnn smáborgari, fjötraður í eigin sálarstríði, t.d. minnimáttarkennd, ótta gagnvart föður og Ödipusarduld eða jafnvel haldinn sálsýki?“

Eysteinn: „Rangt er að hann hafi verið „einsýnn“. Það er einnig misvísandi að segja hann haldinn „minnimáttarkennd“, réttara er að sjálfsmyndin hafi verið ótraust allt frá bernsku.“

Ástráður: „Einsýnn smáborgari var hann áreiðanlega ekki. Annað í fullyrðingunni má til sanns vegar færa. – En enginn hefur háð tignarlegra sálarstríð.“

Úr viðtali Ágústínu Jónsdóttur við þá feðga Eystein Þorvaldsson og Ástráð Eysteinsson í tilefni af útkomu nýrrar þýðingar á Réttarhöldunum eftir Franz Kafka 1995

Konan sem orti Konuvísur

Konudagurinn er liðinn, rómantíkin fjaraði út um leið og rósirnar fölnuðu og rjómatertan kláraðist. En bók dagsins er um verk fátækrar vinnukonu sem orti í óðaönn, bæði eftir pöntun og af djúpri skáldskaparást.

 Sumar bækur fá mikla athygli og umfjöllun í fjölmiðlum og eru á allra vörum meðan aðrar fljóta hjá í þögulli hógværð. Ein þeirra sem lætur lítið yfir sér er Ljóð og líf Helgu Pálsdóttur á Grjótá. Helga var fædd 1877 (ári eftir að Stúlka, fyrsta ljóðabók eftir konu kom út á Íslandi) og lést á tíræðisaldri. Hún naut varla nokkurrar skólagöngu en hafði mikla unun af skáldskap. Helga var vinnukona, lengst af á Grjótá í Fljótshlíð. Hún var ógift og barnalaus, vann hörðum höndum allt sitt líf en orti í sínum fáu frístundum og allmikið safn kvæða liggur eftir hana.

Hér er á ferð bæði úrval og heildarsafn ljóða Helgu í sömu bók, sem verður að teljast nokkuð óvenjulegt. Í bókinni eru ágæt formálsorð eftir ritnefndarkonurnar Hörpu Rún Kristjánsdóttur og Ástu Þorbjörnsdóttur á Grjótá, sem varpa ljósi á ævi og skáldskap Helgu. Loks er bókarauki úr heimildasafni Þórðar Tómassonar í Skógum um forna búskaparhætti og selstörf. Þann hluta hefði þurft að tengja betur við ævi og samtíma Helgu, sveitungarnir geta eflaust tengt betur við þetta efni en ókunnugir.

Screen Shot 2016-02-24 at 09.18.33

Upp úr glatkistunni

Í ágætum formála Hörpu Rúnar kemur fram að fyrir Helgu hafi ljóðlistin fyrst og fremst verið nytjalist en hún orti mest erfiljóð og tækifæriskvæði. Einnig kemur fram að það er fyrir fórnfúst starf Ástu Grjótárbónda sem kvæði Helgu koma út á bók, annars hefðu þau endað í glatkistunni eins og oft vill verða með kveðskap og skrif alþýðufólks á fyrri öldum.

Kvæði Helgu eru í anda rótgróinnar skáldskaparhefðar, bæði í efnistökum og formi. Tíðindi utan úr hinum stóra heimi og tískustraumar eins og nýrómantík eða formbylting snertu hana ekki baun. En það er aðdáunarvert hvað vinnulúin alþýðukona beitir leikandi létt fyrir sig fjölbreyttum bragarháttum, s.s. braghendum og hringhendum sem eru ekkert lamb að leika sér við:

Óska ég styggðir, last og lygðir
lands frá byggðum snúi fljótt.
En aukist dyggðir, einnig tryggðir
angurs hryggð frá hverfi drótt.

Konuvísur 1915

Orðræða Helgu er lítillát, stillt og vel þegin meðal viðtakenda á sínum tíma. Hún hefur verið helsta skáld sveitarinnar og til hennar var leitað með alls konar tækifæriskveðskap í tíma og ótíma. Helstu þemu í kveðskap hennar eru trú, náttúra og ættjörð. Árið sem konur fengu kosningarétt yrkir hún heillangt kvæði sem hún nefnir Konuvísur þar sem húsfreyjur í Fljótshlíð (en ekki vinnukonur) eru nafngreindar  og kostir þeirra tíundaðir. Í lokaerindinu er skáldið sjálft þó nafnlaust og öðrum ætlað að grafa það upp:

Nafn mitt harla nærgætnir
námsmenn þýða í friði,
sem í anda upplýstir
eru af sólarsmiði.

Helga yrkir ekki margt um sjálfa sig en þó má túlka sum kvæða hennar svo að líf hennar hafi verið dapurlegt á stundum og hún beðið skipbrot í ástamálum.

Að ganga bókafjörur

Nýlega var fjallað um kveðskap Helgu í þættinum Orð um bækur á rás 1 ásamt verkum tveggja annarra skáldkvenna sem einnig hafa farið hljótt í ys daganna en eru minnisverðar. Um útgáfu þessara bóka allra eiga vel við orð Þórunnar J. Valdimarsdóttur á dögunum: „það þarf að ganga á bókafjöru á útmánuðum svo góðar bækur hverfi ekki ólesnar“.

Bókaútgáfan Sæmundur, 2015

137 bls

Birt í Kvennablaðinu, 24. febrúar 2016

Síðustu fjörkippir kerlingar

Er gamalt fólk ekki mestmegnis til óþurftar í samfélaginu? Úrelt og afdankað? Hætt á vinnumarkaði og komið á stofnanir þar sem það  hangir á horriminni vælandi um hærri ellistyrk. Það hefur gegnt sínu hlutverki, ætti það ekki bara að vera til friðs? Og ef það fer að hlaupa út undan sér, eyða arfinum eða verða ástfangið, þá er illt í efni.

12493764_682634515213193_3080483639432154021_oStutt skáldsaga, Tvöfalt gler eftir Halldóru K. Thoroddsen, hlaut nýlega Fjöruverðlaunin, bókmenntaverðlaun kvenna 2015. Sagan birtist fyrst í tímaritaröðinni 1005 en kemur nú út hjá bókaútgáfunni Sæmundi.

Halldóra er enginn nýliði þótt ekki sé hún afkastamikil, frá 1990 sent hún sent frá sér þrjár ljóðabækur og tvö smásagnasöfn í knöppum og íronískum stíl. Orðheppin er hún með afbrigðum og ætti að fá aukaverðlaun fyrir að nota svo hnyttilega orðasambandið að selja blíðu sína um áratuga starf við umönnun og barnakennslu. Hún vakti verulega athygli með eitursnjöllum örsögum, 90 sýni úr minni mínu (2002) þar sem hún sagði stórar sögur með fáum orðum. Í Aukaverkunum sem komu út 2007 tekur hún sér stöðu annálaritara eða þjóðsagnasafnara með gagnrýna sýn á nútímann en Halldóra hefur sterkar skoðanir á þjóðfélagsmálum. Ljóð hennar eru sömuleiðis beitt og bæði meitluð og myndvís.

Gamlingjar og geldingaást

Hingað til hefur Guðbergur Bergsson aðallega róið á gamlingjamiðin í íslenskum bókmenntum og dregið upp gróteskar myndir sem sýna einsemd, firringu og margrætt eðli mannsins. Í Tvöföldu gleri er fjallað um ellina og stigvaxandi hrörnun líkama og hugar á nærfærnari hátt, um það að hafa ekkert hlutverk í öllum hamaganginum, horfa á samfélagið utan frá, bíða dauðans og taka síðustu fjörkippina.

78 ára gömul kona þreyr þorrann í lítilli íbúð á Lindargötunni. Hún er þokkalega ern og sýslar við sitt, prjónar og hlustar á útvarpið, hittir vini sína sem brátt tína tölunni og fylgist með lífinu fyrir utan gluggann. Óforvarendis kynnist hún manni og tekur upp sambúð við hann, öllum til hrellingar. Kerling þarf reyndar að hugsa sig vel um áður en hún stígur inn í ástina á ný og breytir svona hressilega til í lífinu. Hún óttast að sprengja upp einmanalega veröld sína en vill heldur ekki verða doðanum að bráð (32). Hún hefur hingað til varast sársauka og hikað, alltaf staðið sína plikt og er „siðprútt gamalmenni“ (44).

Ástir eldra fólks eru tabú, einhvers konar geld ást sem stangast á við lífseigar hugmyndir okkar um norm í samfélaginu:

„Sjálft ímyndunarafllið verður feimið við hugmyndina um krumpuð og þurr gamalmenni að riðlast hvort á öðru með aðstoð sleipiefna“ (52).

Ansi svæsin mynd en í sögunni er þetta bæði  fallegt og sjálfsagt.

Kynslóðabil og hið vélræna líf

Í kyrrstæðu bændasamfélagi á öldum áður skipti aldur engu máli. Fólk lifði og starfaði eins og geta þess og heilsa leyfðu uns það lagðist í kör eða dó. Kynslóðir bjuggu saman og unnu að velferð heildarinnar. Þegar ellin og dauðinn færðust frá heimilinu til stofnana myndaðist rof í samhengið. Í sögunni er kynslóðabilið til gagnrýninnar umfjöllunar, ádeilan er grímulaus og beinist einnig að vélrænu lífi þræls gróðaaflanna:

„Hún fæddist inn í iðnbyltinguna sem seint og um síðir barst inn í íslenskar miðaldir og þá loksins gat þetta sker brauðfætt ættbálkinn. Hennar tími var heimskur þurs sem þurfti þó að fá sinn þroska. Það var í upplýsingunni, já, hún man það, sem við fórum að rífa allt í sundur til að skoða innviðina. Upp úr því grúski iðnvæddum við félagið og hólfuðum það niður í núverandi bása. Vinnuna í sérstakt hólf, þar sem hún smám saman hrökk í sjálfstýringu og snýst nú aðallega um eigin vöxt. Rányrkja dugnaðarforkanna eirir engu. Hver kynslóð ratar í sín hólf, bernsku og elli skipað í einangrun. Við hrópum í helli okkar og nemum aðeins eigið bergmál“ (17-18).

Harðsoðin og ljóðræn

Sagan er fallega skrifuð, harðsoðin og ljóðræn í senn, hvert orð er valið af kostgæfni. Myndmálið rímar fullkomlega við efni og þema; konan „hrærir næturkvíðanum út í dimmt kaffið“ (25) og það er „Hem á pollum, ósnertur dagur undir kristal“ (28). Glerið hefur margvíslegt tákngildi, það bæði einangrar og veitir útsýni og birtu, verndar um leið og það er brotgjarnt og skeinuhætt. Skáletruð (gler)brot með þönkum konunnar fleyga textann og þau síðustu bera feigðina í sér; sprungin pera, lekur eldhúskrani, nornagrátt hár og grimmt skammdegismyrkur, minnisleysi og einsemd taka völdin.

Halldóra hefur sýnt að hún er jafnvíg á örsögur og breiðari verk. Það er af ótal mörgu að taka í þessari sögu þótt stutt sé, hún fjallar um tilvist og tilgang, líf og dauða; þrungin speki, lífsreynslu og ríkri réttlætiskennd; tær og hvöss eins og titill hennar ber augljóslega með sér.

Bókaútgáfan Sæmundur, 2015. 75 bls

Birt í Kvennablaðinu, 14. 02. 2016

 

10 magnaðar skáldsögur eftir konur

Steinunn Inga Óttarsdóttir, bókmenntagagn­rýn­andi Kvennablaðsins teygir sig í bókahillu og tekur fram tíu skáld­sögur eftir íslenskar konur.

Albúm
Guðrún Eva Mínervudóttir 2003

Nýstárlegt innlegg í stóran flokk bernsku- og skáldævisagna sem karlar hafa verið iðnir við að fylla í gegnum árin. Upp­eldisaðstæður einkennast sífellt meir af teygjanlegum fjöl­skyldu­böndum; stjúpforeldrum og -systkinum. Þau bönd eru óvenjuleg að því leyti að þau geta slitnað án þess að börnin hafi nokkuð um það að segja. Í kjölfarið koma erfiðar tilfinningar eins og höfnun, vanmáttarkennd og einsemd sem fólk glímir við ævina á enda.

Blátt blóð
Oddný Eir 2015

Femínískt og persónulegt verk. Fjallað er um egglos, getnað, með­göngu, móðurhlutverk og fjölskylduform, og hið kven­lega og karllega í lífinu. Sorg vegna barnleysis er lýst hisp­urs­laust og sagt frá ást, vonum og heitri þrá af slíkri einlægni að það er ekki þurrt auga í salnum.

Dísusaga
Vigdís Grímsdóttir 2013

Sagan fjallar um skáldskap, ást og ofbeldi. Dísa og Gríms hafa undirtökin á víxl og reyna að yfirgnæfa hvor aðra. Þegar Dísa var 10 ára var hún beitt kynferðisofbeldi sem hafði mikil áhrif á sálarlíf hennar og persónuleika. Sakleysið var frá henni tekið en afneitun, þöggun og skömm fylgja henni hvert fótmál. Um leið er þetta saga um það að verða skáld og rithöfundur, um það að elska og skrifa til að geta haldið áfram með líf sitt.

Hvítfeld
Kristín Eiríksdóttir 2012

Ættar- og fjölskyldusaga sem gerist í Reykjavík á níunda áratugnum. Óhamingja, lygar, geðveiki og alkóhólismi gegn­sýra líf fjölskyldu Jennu sem sjálf er sjúklega metnaðargjörn. Hún spinnur upp sögur af velgengni sinni í útlöndum til að lappa upp á lélega sjálfsmynd og lesandinn flækist í lygavef hennar. Persónurnar eru breyskar og harmrænar, glíma við fíkn og áföll sem aldrei var unnið úr og lifa í blekkingu sem viðheldur óhamingjunni. Um leið er sagan samfélagsgreining, innsýn í tíðaranda, uppeldi og siðferði kynslóðanna.

Jöklaleikhúsið
Steinunn Sigurðardóttir 2002

Sagan gerist á Papeyri, vinabæ rússneska skáldsins Antons Tsjékovs. Frumsýna á eitt leikrita Tsjekovs með karlmenn í öllum aðalhlutverkum og hefjast þrotlausar leikæfingar með stór­skemmtilegum uppákomum. Kynferði og kynhneigð eru helstu þemu sögunnar eða öllu heldur afkynjun og kven­leiki sem valda því að allt fer á hvolf hjá íbúum Papeyrar. Leiftrandi fyndin saga þar sem karl- og kveneðli er sýnt í íron­ísku ljósi, gróðahyggja og listamannslund takast á með­an ástin ýmist blómstrar eða deyr.

Óreiða á striga
Kristín Marja Baldursdóttir 2007

Mikil kvennasaga, um sterkar konur og sjálfstæðar. Femínísk tákn skjóta upp kolli í sögunni aftur og aftur, s.s. vindur, dúfur og blautur þvottur sem tengjast kvenfrelsisbaráttu, samstöðu og skyldum sem lífið skaffar konum. Í lokin sitja eftir spurningar um hvort frelsið geti verið of dýru verði keypt, hvort ástin sé það mikilvægasta í lífinu og hvort konur þurfi alltaf að velja milli skyldu og sköpunarþrár.

Rán
Álfrún Gunnlaugsdóttir 2008

Hér er fjallað um tíma, fjarlægð og minningar. Rán hefur allt sitt líf verið á flótta undan fortíð sinni, sársauka og sektarkennd. Hún hefur lifað í öruggu og þægilegu hjóna­bandi en áttar sig á því á gamals aldri að það hefur verið henni dýrkeypt. Hringsól Ránar um borgina Barselónu vekur upp ljúfsárar minningar og erfiðar spurningar um ástina, hikið og blinduna í lífinu. Einstaklega vel skrifað, af skapandi táknsæi og listfengi.

Snaran
Jakobína Sigurðardóttir 1968

Frásagnarform Jakobínu var einsdæmi á sínum tíma en hún var módernisti og einn af merkustu rithöfundum Íslendinga. Snaran er eintal manns sem lætur dæluna ganga og endurspeglar orðræðu um pólitík samtímans. Sjálfur er hann leiðindapúki og skræfa, afsprengi samfélags þar sem auðvald og eftirlit halda fólki í helgreipum. Jakobína er íslenskur Orwell með myrka framtíðarsýn sem illu heilli færist nær því að rætast með ári hverju.

Tryggðapantur
Auður Jónsdóttir 2007

Áleitin og pólitísk saga um vald og valdaleysi, ríkidæmi og fátækt. Söguna má lesa sem allegóríu um flóttafólk og innflytjendur sem er eitt brýnasta úrlausnarefni samfélags þjóðanna um þessar mundir. Skýr og mikilvægur boðskapur sem vekur til umhugsunar.

Undantekningin
Auður Ava Ólafsdóttir 2012

Meistari femínískra tákna, orðræðu og margræðni. María stendur frammi fyrir skilnaði, veltir fyrir sér orsaka­sam­henginu og hvað framtíðin muni bera í skauti sér. Perla sem býr í kjallaranum er dvergur og sálgreinandi rithöfundur sem kemur til skjalanna með nýja sýn á óreiðuna. Kyn og kynhlutverk eru til umræðu ásamt ástinni og listinni og um leið bítur sagan í skottið á sér með vísunum í heimspeki og sálfræði, skáldskapinn og tilurð hans.